Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 47/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 47/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090083

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

  1. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 18. september 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Gíneu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. september 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi árið 1999 og fékk hann útgefið búsetuleyfi, skv. 15. gr. þágildandi laga um útlendinga, nr. 96/2002, hinn 26. september 2003. Kærandi var skráður úr landi 31. janúar 2015 og var búsetuleyfi hans af þeim sökum fellt niður 21. júní 2017. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið 2. maí 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2020, var umsókninni synjað. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 351/2020, dags. 14. október 2020, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að veita kæranda umbeðið dvalarleyfi. Hinn 19. nóvember 2020 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi með gildistíma til 3. nóvember 2021.

Hinn 14. september 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á sama grundvelli og áður. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. september 2023, var umsókn kæranda hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga en ákvörðun var móttekin af lögmanni kæranda samdægurs. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda einnig brottvísað á grundvelli b-, og c-liðar 1. mgr. 98. gr., og 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og gert að sæta endurkomubanni til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 18. september 2023 og lagði fram greinargerð vegna málsins 3. október 2023. Með tölvubréfi, dags. 22. nóvember 2023, lagði kærandi fram frekari fylgigögn vegna málsins. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 51. gr. laga um útlendinga og ætti undanþága 3. mgr. ákvæðisins ekki við í máli kæranda. Þar að auki var honum gert að sæta brottvísun á grundvelli b- og c-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 98. gr. sömu laga og honum bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindu tók Útlendingastofnun ekki efnislega afstöðu til 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga heldur komst að þeirri niðurstöðu að umsókn kæranda skyldi ekki tekin til efnislegrar vinnslu, sbr. 51. gr. laga um útlendinga og afmarkast málsmeðferð fyrir kærunefnd af framangreindu.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 17. nóvember 2023 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í málinu, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur m.a. fram að ætlunin sé að beita skuli ákvæðinu þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Kærandi vísar til þess að túlka beri ákvæðið rúmri lögskýringu og auk þess beri að taka tillit til fyrri dvalar, og vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 27/2022, dags. 23. febrúar 2022, hvað það varðar. Þrátt fyrir þetta vísi Útlendingastofnun til þess að almennt beri að skýra ákvæðið þröngt. Kærandi vísar til fyrri úrskurðar kærunefndar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að veita ætti honum dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Umsóknin sem nú sé til meðferðar hjá stjórnvöldum grundvallist á sömu ástæðum, enda hafi aðstæður kæranda ekki tekið miklum breytingum frá því að kærunefnd fjallaði um mál hans.

Kærandi reifar úrskurð kærunefndar nr. 351/2020 og telur að eðli málsins samkvæmt eigi að gera vægari kröfur til mats á aðstæðum, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga með tilliti til sérstakra tengsla hans við landið. Kærandi vísar til þess að fyrrgreint ákvæði feli eingöngu í sér hvort umsókn sé tekin til afgreiðslu á meðan umsækjandi er staddur á landinu, en ekki hvort að skilyrðum fyrir útgáfu dvalarleyfis sé fullnægt. Kærandi telur að niðurstaða Útlendingastofnunar sé ekki nægjanlega rökstudd.

Í fyrsta lagi haldi Útlendingastofnun því fram að kærandi sé ekki stór hluti af lífi dóttur sinnar þar sem hann hafi dvalið lengi erlendis, án þess að tillit sé tekið til þess að dvöl hans í Frakklandi á tímabilinu [...] hafi orðið lengri en kærandi hafi ætlað sér. Kærandi vilji styrkja tengsl við dóttur sína og barnsmóður hérlendis og taka meiri þátt í uppeldi hennar. Séu sjónarmið kæranda hvað þetta varði óbreytt frá fyrra máli. Telur kærandi það orka tvímælis að Útlendingastofnun gagnrýni sig fyrir þennan þátt málsins en komi í veg fyrir frekari samveru þeirra með því að hafna honum um heimild til dvalar á meðan umsókn hans sé til meðferðar. Kærandi vísar til bréfs frá barnsmóðir sinni þar sem hún greini frá samskiptum og samveru kæranda með dóttur sinni. Kærandi telur að ekki hafi verið tekið nægt tillit til bréfsins og aðstæðna barnsins og barnsmóður kæranda, og að Útlendingastofnun hafi í raun virt að vettugi stóran hluta gagna málsins við ákvörðunartöku. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki haft hagsmuni barnsins að leiðarljósi við meðferð málsins.

Í öðru lagi bendir kærandi á umfjöllun Útlendingastofnunar um að sonur hans sé ekki lengur barn að aldri og að kærandi hafi ekki sinnt uppeldi hans. Í því skyni bendir kærandi á að þegar umsókn um dvalarleyfi hafi verið móttekin af Útlendingastofnun hafi sonur hans verið 17 ára gamall og stofnunin tekið næstum heilt ár að taka ákvörðun í máli kæranda. Telur kærandi að líta verði til þess að langur málsmeðferðartími Útlendingastofnunar hafi leitt til þess að sonur hans hafi náð 18 ára aldri þegar ákvörðun hafi loks verið tekin í málinu og gerir kærandi athugasemd við að það sé notað gegn honum. Telur kærandi að tengsl kæranda við son sinn hafi ekki verið metin með nægjanlega góðum hætti, heldur látið við sitja að vísa til aldurs hans.

Í þriðja lagi vísar kærandi til umgengnissamninga sem lagðir hafi verið fram við meðferð málsins en í ákvörðun Útlendingastofnunar sé litið á það sem ákvörðunarástæðu að samningarnir hafi ekki verið staðfestir af sýslumanni án þess að kæranda hafi verið gefið færi á að andmæla því eða bæta úr. Telur kærandi þetta óvandaða stjórnsýsluhætti og brot gegn leiðbeiningaskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Í fjórða lagi vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun fari með rangt mál varðandi brottför kæranda af landinu sem sé ranglega skráð árið 2019 þegar hið rétta sé að hann hafi yfirgefið landið í mars árið 2021. Í fimmta lagi mótmælir kærandi því að Útlendingastofnun skuli byggja ákvörðun sína verulega á aðgerðum franskra stjórnvalda gagnvart kæranda. Telur kærandi að ekki sé málefnalegt að byggja á hagsmunamati franskra stjórnvalda án þess að það sé sérstaklega rökstutt hvers vegna slíkt mat sé framselt til stjórnvalda annarra ríkja. Kærandi bendir á að börn hans og barnsmæður hér á landi séu öll íslenskir ríkisborgarar og að ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga skuli beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Vísar kærandi til efnisreglna stjórnsýsluréttarins og að matskenndar ákvarðanir skuli byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og telur verulegan annmarka hvað þennan þátt málsins varði, sem valdi því að ákvörðunin skuli ógild.

Í sjötta lagi vísar kærandi til endurkomubanns sem útgefið hafi verið af frönskum stjórnvöldum. Kærandi bendi á að hann hafi sætt endurkomubanni þegar úrskurður kærunefndar nr. 351/2020 hafi verið kveðinn upp en að það hafi ekki komið í veg fyrir útgáfu umbeðins dvalarleyfis. Telur kærandi aðstæður sínar ekki hafa breyst með þeim hætti að réttlætanlegt sé að hafna beiðni hans um heimild til dvalar. Þá vísar kærandi til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar gangi út frá því að kærandi sé hættulegur samfélaginu hvað varðar brottvísunarhluta málsins. Ákvörðunin sé afar íþyngjandi fyrir kæranda, einkum með tilliti til tengsla hans við landið. Kærandi vísar til lagaákvæða um takmarkanir á heimild til brottvísunar, einkum varðandi ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum, þar sem sérstaklega skuli tekið tillit ef um barn sé að ræða. Kærandi kveður það afar ósanngjarnt fyrir sig að sæta endurkomubanni með þeim hætti að alfarið yrði komið í veg fyrir að hann gæti sinnt börnum sínum hér á landi.

Loks byggir kærandi á því að tengsl hans hér á landi og umönnunarsjónarmið leiði til veitingar dvalarleyfis. Vísar kærandi til yfirlýsinga barnsmæðra sinna sem telji það nauðsynlegt að hann fái útgefið dvalarleyfi til þess að geta sinnt börnum sínum með fullnægjandi hætti. Um það vísar kærandi til ákvæða barnalaga nr. 76/2003 og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Telur kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar koma í veg fyrir að hann geti rækt skyldur sínar gagnvart börnunum í skilningi framangreindra laga.

Kærandi gerir sérstaka athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar en 5. maí 2023 óskaði stofnunin eftir frekari upplýsingum og gögnum, meðal annars vegna 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Hafi samskiptin bent til þess að umsókn kæranda væri til efnislegrar meðferðar hjá stofnuninni. Með bréfi, dags. 17. júlí 2023, óskaði stofnunin eftir andmælum kæranda varðandi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Telur kærandi sig hafa haft réttmætar væntingar til þess að umsóknin yrði tekin til efnismeðferðar enda hafi aðstæður hans ekki breyst með þeim hætti frá maí til júlí 2023 að önnur málsmeðferð skyldi réttlætt.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Umsókn um dvalarleyfi

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c-lið 1. mgr. 51. gr, sbr. 2. mgr. 51. gr. Sæki útlendingur um dvalarleyfi hér á landi án þess að vera undanþeginn því að sækja um áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skal hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama á við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt, sbr. 4. mgr. 51. gr. laganna.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar séu upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er matskennt lagaákvæði en hugtakið „ríkar sanngirnisástæður“ er ekki útfært nánar í lögunum eða í reglugerð um útlendinga, líkt og ráðherra hefur heimild til. Eru einu leiðbeiningarnar sem stjórnvöld hafa við beitingu ákvæðisins þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga, en þar segir m.a. um 3. mgr. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Mál kæranda lýtur að umsókn hans um dvalarleyfi en í samræmi við 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga gildir sú meginregla að við slíkar aðstæður skuli sækja um leyfi áður en útlendingur kemur til landsins. Í hinni kærðu ákvörðun er komist að þeirri niðurstöðu að ríkar sanngirnisástæður í skilningi 3. mgr. 51. gr. væru ekki fyrir hendi í máli kæranda, og er umsókn hans því hafnað, sbr. 4. mgr. 51. laga um útlendinga.

Kærunefnd fjallaði efnislega um aðstæður kæranda gagnvart skilyrðum fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið í úrskurði nefndarinnar nr. 351/2020, dags. 14. október 2020. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ákvörðun í máli kæranda skyldi felld úr gildi og honum veitt umbeðið dvalarleyfi. Í  úrskurðinum var m.a. fjallað um lengd lögmætrar dvalar kæranda og fjölskyldutengsl en líkt og rakið var í kafla um málsástæður á kærandi tvær barnsmæður og tvö börn hér á landi. Hafði kærandi byggt á því að mikilvægt væri fyrir fjölskylduna að kærandi dveldist hér á landi svo að börnin gætu haft föður í lífi sínu og hann sinnt framfærsluskyldu sinni með hliðsjón af ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að barnsmæður kæranda hafi séð fyrir sér meiri aðkomu kæranda að uppeldi barnanna. Jafnframt var málatilbúnaður kæranda fyrir nefndinni reistur á því að gögn málsins bentu til þess að rík umönnunarsjónarmið mæltu með því að honum yrði veitt dvalarleyfi, enda væru börn hans ung að aldri og þyrftu á föður sínum að halda. Með því að neita kæranda um dvalarleyfi væri stórfjölskylda hans á Íslandi slitin í sundur en slíkt bryti bersýnilega gegn hagsmunum barna kæranda. Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar, dags. 14. október 2020 fékk kærandi gefið út dvalarleyfi, dags. 19 nóvember 2020, á grundvelli sérstakra tengsla samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir þá miklu áherslu sem kærandi lagði á að hann fengi dvalarleyfi á Íslandi til að vera með skyldmennum sínum og tryggja hagsmuni barna sinna er ljóst að hann sneri aftur til Frakklands í mars 2021 í bága við endurkomubann sem honum hafði verið gert þar í landi. Eftir komuna þangað var kærandi látinn afplána fangelsisrefsingu og sneri hann að því loknu aftur til Íslands og lagði fram umsókn um dvalarleyfi, dags. 14. september 2022. Var þá fallið úr gildi dvalarleyfi kæranda á grundvelli sérstakra tengsla en það hafði gildistíma til 3. nóvember 2021. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna kærandi lét fyrir farast að endurnýja leyfið eins og hann átti kost á samkvæmt 57. gr. laga um útlendinga. Hafa frönsk stjórnvöld nú gert kæranda að sæta endurkomubanni til 18. maí 2025.

Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að með því að snúa aftur til Frakklands, svo skömmu eftir að honum hafði verið veitt dvalarleyfi hér á landi, og með þeim afleiðingum að honum var gert að afplána fangelsisrefsingu þar í landi, hafi kærandi látið sér í léttu rúmi liggja þá hagsmuni sem börn hans höfðu af samvistum við hann og voru grundvöllur dvalarleyfisins. Þá vanrækti kærandi að nýta rétt sinn til endurnýjunar fyrra dvalarleyfis. Þá er til þess að líta að sonur kæranda er nú orðinn 18 ára gamall, kærandi ber ekki lengur framfærsluskyldu gagnvart honum og hagsmunir hans af nærveru við kæranda ekki þeir sömu og þegar um er að ræða barn yngra en 18 ára. Einnig hefur kærandi aldrei verið aðalframfærandi barna sinna eða farið með forsjá þeirra. Verður því ekki talið að dvöl kæranda sé nauðsynleg til þess að sameina fjölskyldu. Kærandi getur lagt inn umsókn um dvalarleyfi á ný vegna tengsla sinna hér á landi eftir að hann hefur yfirgefið landið. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í málinu, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Verður því staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Brottvísun og endurkomubann

Í b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum þessum eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Í c-lið 1. mgr. 98. gr. kemur fram að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Í 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Með bréfi, dags. 17. júlí 2023, var kæranda leiðbeint um að honum kynni að verða ákvörðuð brottvísun og endurkomubann hingað til lands og gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærandi sendi Útlendingastofnun andmælabréf, dags. 24. ágúst 2023. Í andmælum kæranda er einkum vísað til grundvallar dvalarleyfisumsóknar hans varðandi sérstök tengsl við landið. Framangreindu til viðbótar tilgreindi kærandi í greinargerð sinni til kærunefndar að Útlendingastofnun leggi til grundvallar að kærandi sé hættulegur samfélaginu. Hann kveður ákvörðun um brottvísun og endurkomubann afar íþyngjandi fyrir sig og fjölskyldu sína og vísar hann um það til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Enn fremur vísar kærandi til 4. mgr. 102. gr. laga um útlendinga og telur hvorki öryggi ríkisins né almannahagsmuni benda til þess að brottvísun sé nauðsynleg. Telur kærandi aðstæður sínar ekki hafa breyst með slíkum hætti að það réttlæti brottvísun og endurkomubann frá því að kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu, í úrskurði nr. 351/2020, að beiting d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. sömu laga gagnvart kæranda.

Kærunefnd hefur yfirfarið hina kærðu ákvörðun og gögn málsins. Kærunefnd telur ósannað að kærandi hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið augljóslega villandi upplýsingar í málinu, sbr. b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Enn fremur lítur kærunefnd til þess að kæranda var gert að leggja fram nýja umsókn um dvalarleyfi, sbr. tölvubréf Útlendingastofnunar dags. 5. maí 2023. Fær nefndin ekki betur séð en að Útlendingastofnun og lögmaður kæranda hafi átt í virku samtali með tölvubréfum frá júní til ágúst 2023. Verður ekki annað lagt til grundvallar en að kærandi hafi tekið virkan þátt í málsmeðferðinni og, í góðri trú, stuðlað að því að málið yrði upplýst. Hvað tilvísun Útlendingastofnunar til c-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga varðar, liggur fyrir að kærandi hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis vegna brota sem geta varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði, sbr. til hliðsjónar 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 218. gr. b sömu laga, en einnig 1. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998, og 1. mgr. 95. gr. sbr. 50. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, og eru skilyrði ákvæðisins því uppfyllt.

Hvað varðar málsástæðu kæranda um að aðstæður hans hafi ekki breyst frá uppkvaðningu úrskurðar nr. 351/2020 lítur kærunefnd til þess að aðstæður kæranda hafa breyst þó nokkuð líkt og þegar hefur verið fjallað um. Gagnstætt því sem kærandi heldur fram sýndi hann í verki eftir útgáfu dvalarleyfis í nóvember 2020 að hann myndi ekki sinna foreldraskyldum sínum af þeirri festu sem hann hafi ætlað sér. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að sonur hans sé nú sjálfráða. Því telur kærunefnd gögn málsins ekki benda til þess að brottvísun kæranda feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Er það niðurstaða kærunefndar að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda sé í samræmi við lög og er tilgangur hennar að framfylgja lögmætum markmiðum laga um útlendinga. Þá er ljóst að kærandi hefur nokkurn brotaferil að baki hér á landi sem hófst stuttu eftir komuna til landsins og hafði lögregla síðast afskipti af honum vegna brota árið 2014.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til c-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga vegna afplánunar refsingar erlendis en einnig vegna 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvelur hann ólöglega í landinu. Felldur verður úr gildi sá hluti ákvörðunar Útlendingastofnunar er lýtur að brottvísun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Í 2. málsl. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga kemur fram að endurkomubann skuli að jafnaði ekki vara lengur en fimm ár og eigi skemur en tvö ár. Telur kærunefnd hæfilegt að kærandi skuli sæta endurkomubanni samkvæmt framangreindu lágmarki og verður því ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann staðfest, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærunefnd hefur nú yfirfarið hina kærðu ákvörðun, fylgigögn málsins og málsmeðferð Útlendingastofnunar að öðru leyti og telur ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar í máli kæranda.

Kæranda er jafnframt bent á að hann geti lagt fram nýja dvalarleyfisumsókn á sama eða öðrum grundvelli eftir að hann yfirgefur Ísland, með fyrirvara um 101. gr. og d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest hvað varðar umsókn um dvalarleyfi, brottvísun á grundvelli c-liðar 1. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sem og endurkomubann til tveggja ára.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest varðandi umsókn kæranda um dvalarleyfi og brottvísun á grundvelli c-liðar 1. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og endurkomubann til tveggja ára.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed regarding the appellant‘s application and expulsion on the grounds of Art. 98, para. 1(c) and Art. 98, para. 2 of the Foreign Nationals Act, and a re-entry ban for two years.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum